Greinin fjallar um tæknihalla í máltækni, en það er þegar mállíkön sem þjálfuð eru á raunverulegum málgögnum fara óumbeðin að endurspegla samfélagslegan ójöfnuð á borð við kynjahalla, óháð ásetningi þeirra sem búa kerfin til. Einblínt er á kynjahalla í vélþýðingum og í kjölfarið er greint frá rannsókn sem gerð var á íslenskum þýðingum Google Translate. Niðurstöður sýna að töluverður munur er á birtingarmynd karlkyns og kvenkyns í þýðingarvélinni. Þar má sjá mynstur sem samsvara ákveðnum samfélagslegum hugmyndum um kyn og kynjahlutverk, en sem dæmi virðist það háð merkingu lýsingarorða sem vísa til fólks hvort þau birtust í karlkyni eða kvenkyni. Þau sem fela í sér jákvæð persónueinkenni birtust frekar í karlkyni en þau neikvæðu í kvenkyni. Þessu var aftur á móti öfugt farið með útlitstengd lýsingarorð. Þar að auki birtust ákveðnar staðalmyndir í þýðingum tengdum konum og heimilisstörfum annars vegar og körlum og iðnaðarstörfum hins vegar. Þessar niðurstöður sýna ótvírætt fram á mikilvægi þess að vera á varðbergi gagnvart tækninni svo hún viðhaldi ekki úreltum samfélagslegum hugmyndum — sér í lagi í hinum stafræna heimi nútímans.
BibTeX:
@Article{solmundsdottir2021vondar, author = {Agnes Sólmundsdóttir and Dagbjört Guðmundsdóttir and Lilja Björk Stefánsdóttir and Anton Karl Ingason}, journal = {Ritið}, title = {Vondar vélþýðingar. Um kynjahalla í íslenskum þýðingum Google Translate}, year = {2021}, number = {21}, pages = {177--200}, volume = {3}, }